Í heildina verða grænmetisréttirnir sex talsins og allir án dýraafurða :: Hlaut viðurkenningu fyrir lofsvert framtak á matvæla- og næringarsviði
Fyrirtækið Grímur kokkur hefur farið sífellt vaxandi frá því það var sett á laggirnar árið 2005 en það telur nú 17 starfsmenn á ársgrundvelli. Markmið Gríms kokks er að framleiða fyrsta flokks vöru úr fyrsta flokks hráefni sem er bæði holl, bragðgóð og fljótlegt að framreiða en flestar vörurnar eru fulleldaðar, svo aðeins þarf að hita þær upp. Óhætt er að segja að plokkfiskurinn hafi verið aðalsmerki Gríms kokks í gegnum árin enda hefur rétturinn notið gríðarlegra vinsælda á Íslandi, hvort sem um er að ræða mötuneyti, heimili, skóla eða leikskóla. Upp á síðkastið hefur fyrirtækið lagt mikla áherslu á holla grænmetisrétti í samstarfi við Heilsurétti fjölskyldunnar og eru þeir nú allir án dýraafurðar og því hentugir fyrir fólk sem aðhyllist Vegan lífstíl. Þess má einnig geta að í fyrra hlaut Grímur kokkur Fjöreggið frá Matvæla- og næringarfræðafélagi Íslands, í samstarfi við Samtök iðnaðarins, fyrir lofsvert framtak á matvæla- og næringarsviði.
Verða sex vegan réttir í heildina„Heilsuréttir fjölskyldunnar komu fyrst á markað fyrir um tveimur árum en núna höfum við gert endurbætur á þessum réttum og eru þeir nú allir vegan,“ segir Grímur Gíslason, eigandi Gríms kokks og bætir við að von sé á fleira slíku. „Núna á næstu dögum munu koma þrír grænmetisréttir til viðbótar sem eru líka vegan, hvítlauks- og hvítbaunabuff, kjúklingabaunabuff með sólþurrkuðum tómötum og brokkolí og svo gulrótar og linsubaunbuff. Þetta verða þannig sex vegan réttir í heildina.“Aðspurður hver ástæðan hafi verið fyrir því að breyta og fjölga réttunum segir Grímur að sé stóraukin eftirspurn á vegan vörum og að sífellt fleiri kjósi að sneiða hjá dýraafurðum. „Það er gríðarleg vakning í gangi og ef við tökum ekki þátt þá vöknum við einn morguninn og áttum okkur á því að við erum búin að missa svo og svo mörg prósent af markaðnum, það viljum við alls ekki. Við tökum að sjálfsögðu þátt í öllum breytingum og allri þróun sem verður á matarmarkaðnum og neysluvenjum. Við höfum gert þetta alveg frá upphafi, reynt að hafa réttina okkar sem hollasta, minnkað saltmagnið í þeim og þess háttar. Við reynum að vera á tánum hvað þetta varðar, fylgja markaðnum og þörfum hans, og vegan er klárlega eitt af því, því þessi hópur fer gríðarlega ört vaxandi í þjóðfélaginu.“Þarftu ekki að fara að kynna þér baunaræktun? „Ég held ég fari nú ekki í það, láti aðra um það,“ segir Grímur og hlær. „En þetta er mjög spennandi markaður, þessi vegan markaður.“
Hlaut viðurkenningu FjöreggsinsSl. haust hlaut Grímur kokkur viðurkenningu Fjöreggsins en það er Matvæla- og næringarfræðafélag Íslands, í samstarfi við Samtök iðnaðarins, sem veitir verðlaunin fyrir lofsvert framtak á matvæla- og næringarsviði. Hlaut fyrirtækið verðlaunin fyrir að auka fiskneyslu með fjölbreyttu vöruframboði úr íslensku sjávarfangi. „Þetta er ein helsta viðurkenning í matvælageiranum á Íslandi og þeir hljóta hana sem framleiða holla og næringarríka vöru. Þetta hefur haft gríðarleg áhrif strax á eftirspurn og annað, ég ætlaði ekki að trúa því. Landspítalinn er farinn að versla mikið við okkur, mikið til vegna þessarar viðurkenningar, það er farið að taka meira eftir okkur.“Þrátt fyrir að sala í matvörubúðum hafi sömuleiðis vaxið jafnt og þétt telur Grímur að Fjöreggið hafi ekki eins mikil áhrif á þá sölu enda lítið fjallað um viðurkenninguna í fjölmiðlum. „Ég hef ekki orðið var við meiri eftirspurn í lausasölu eftir að við hlutum verðlaunin, þetta fór kannski ekki nógu hátt í fjölmiðlum en það er vonandi að þetta viðtal verði til þess að vekja athygli á fyrirtækinu og auka eftirspurnina.“
Skoða möguleika á útflutningiAð sögn Gríms er verksmiðja fyrirtækisins vel tækjum búin og húsnæðið algjörlega lagað að þörfum hennar. „Við gætum klárlega annað töluvert meira en við erum að gera núna á íslenskum markaði og erum við hægt og rólega að skoða möguleika á útflutningi en viljum stíga mjög varlega til jarðar í þeim efnum. Við höfum verið í samstarfi við Marhólma sem er fyrirtæki hér í Eyjum en þeir framleiða síldarrétti, vinna með hrogn, masakó og fleira. Við höfum verið að reykja og sjóða þorskhrogn sem fara á Bretlandsmarkað, þannig að við erum aðeins byrjuð í útflutningi en allt í gegnum Marhólma. Þetta er tugtonna samningur sem munar svo sannarlega um.“
Fiskibollur með viðbættu Omega-3Í fjölbreyttri flóru rétta má einnig finna fiskibollur með viðbættu Omega-3 fitusýrum. „Það er afrakstur verkefnis sem við tókum þátt í ásamt nokkrum öðrum fyrirtækjum í Evrópu, m.a. frá Noregi, Finnlandi, Hollandi, Ítalíu og náttúrulega Íslandi. Við vorum síðan fyrsta fyrirtækið til að koma með vöru með viðbættu Omega-3. Það er skortur á Omega-3 hjá flestum í heiminum en hlutföllin milli Omega-3 og Omega-6 eiga að vera 1:1. Hérna á Íslandi eru hlutföllin hins vegar 1:17 og í Bandaríkjunum er það 1:33, þannig það er víða pottur brotinn. Þetta er okkar tilraun til að leggja eitthvað af mörkum en ef þú borðar 200 gr. af Omega-3 fiskibollunum okkar þá áttu að fá dagsskammtinn. Við erum fyrsta fyrirtækið í Evrópu sem hefur tekist að framleiða tilbúna rétti án þess að eyðileggja Omega-3 og d-vítamín við eldun þannig að þetta verkefni var okkur gríðarlega mikilvægt.“
Þróa rétti fyrir eldri einstaklinga sem þjást af næringarskortiEins og fram hefur komið þá hefur Landspítalinn verslað mikið við Grím kokk og stendur núna til að fyrirtækið hefji framleiðslu á mat sem verður sérsniðinn að þörfum eldra fólk. „Við erum að taka þátt í verkefni með MATÍS, Háskóla Íslands og fleirum, sem gengur út á að þróa mat fyrir eldri einstaklinga sem þjást af næringarskorti. Við erum í vöruþróun núna á réttum sem eru næringarmiklir og að sjálfsögðu bragðgóðir. Þetta er sex mánaða verkefni og gæti orðið mjög spennandi og skapað enn fleiri störf. Það er verið að leggja inn fólk vegna næringarskorts og þetta sama fólk er jafnvel að koma inn aftur sem er gríðarlega kostnaðarsamt fyrir ríki og heilbrigðiskerfið. Með þessum réttum vonumst við til að geta fækkað endurinnlögnum vegna næringarskorts og það væri gríðarlega mikið til unnið ef við næðum því,“ segir Grímur að endingu.